5 kostir þess að hlaupa
Margir hafa haft orð á því að: “Ef líkamsrækt fengist í töfluformi, væri taflan sú allra vinsælasta í heiminum.” Ávinningur reglulegrar líkamsræktar er svo mikill og magnaður að engin önnur tafla jafnast á við hann. Og það besta er, að gjaldið sem þú greiðir fyrir líkamsrækt er mun minna en þú greiðir fyrir nokkur önnur lyf eða bætiefni!
Það er mikilvægt að líkamleg þjálfun okkar sé fjölbreytt og samanstandi af bæði þolæfingum og styrktarþjálfun, en ekki bara öðru hvoru. Það er líka mikilvægt að taka reglulega inn nýjar áskoranir í líkamsrækt og efla færni okkar í mismunandi greinum, en festast ekki of lengi í því sama þannig að hreyfingin verði einhæf.
Eitt af því sem væri tilvalið að bæta inn í rútínuna nú þegar sólin hækkar á lofti eru útihlaup. Hlaup og/eða létt skokk, 2-3x í viku, samhliða styrktarþjálfun gæti verið skemmtileg áskorun að takast á við í sumar.
Ávinningur 1
Þú bætir árum við líf þitt og gerir daglegt líf þitt betra
Regluleg líkamsrækt bætir og lengir líf þitt. Fáir óska sér þess eingöngu að lengja líf sitt, heldur viljum við langlífi þar sem við erum sjálfbjarga, heilbrigð og virk. Lykillinn að því er regluleg og góð þol- og styrktarþjálfun! Þegar við höfum gott þol og erum sterk, erum við frjálsari og meira sjálfbjarga í daglegu amstri.
Ávinningur 2
Þú bætir svefn þinn
Eitt það besta sem þú getur gert fyrir heilsu þína er að taka svefninn föstum tökum og sofa vel á hverri nóttu. Þú munt ekki sjá eftir því að leggja rækt við svefninn. Í kjölfarið muntu nefninlega upplifa mikil jákvæð áhrif á líkama, skap og orku yfir daginn. Á síðustu árum hafa ótrúlegar upplýsingar komið fram í rannsóknum um svefn. Til dæmis um tengsl offitu, þunglyndis og lítils svefns. Þegar við erum illa sofin verður m.a. brenglun á hormónastarfsemi okkar, sérstaklega á hormónum sem stýra hungri og seddu. Afleiðingarnar eru þær að við verðum svengri og sækjum í gerviorku eins og koffín og sykur. Til viðbótar finnum við síður fyrir því þegar við erum orðin södd og borðum því of mikið.
Regluleg líkamsrækt, til dæmis hlaup og styrktarþjálfun, hjálpar þér bæði að sofna fyrr og sofa betur!
Ávinningur 3
Þú grennist og aukakílóin fjúka
Kröftugar göngur og hlaup kalla á sífellda hreyfingu alls líkamans. Þess vegna brennir þú tiltölulega mörgum hitaeiningum við þá hreyfingu. Þú þarft ekki endilega að ganga/hlaupa hratt til að ná góðum bruna. Þú brennir næstum jafn mörgum hitaeiningum við hæg og hröð hlaup, þú þarft bara að fara lengri vegalengd. Kröftug ganga, létt skokk eða hlaup í bland við styrktarþjálfun er afar góð leið til að losa sig við aukakíló og tilvalið að hafa sem uppistöðu í þinni æfingarútínu í sumar. Aukinn vöðvamassi hefur jákvæð áhrif á útlitið, stinnir vöðvar gefa fallegri útlínur og hraust yfirbragð. Vöðvar þurfa orku og því stærri sem vöðvar eru þeim mun meiri orku þurfa þeir. Meiri vöðvamassi eykur grunnbrennslu líkamans.
Ávinningur 4
Hugarfar þitt verður jákvæðara og þunglyndi minna
Margir byrja að stunda hlaup eða aðra líkamsrækt með það að meginmarkmiði að grennast. Þegar líður á, verður ástæðan þó sú að þér einfaldega líður betur þegar þú stundar reglulega hlaup eða aðra líkamsrækt. Skapið verður betra, tilfinningalegt jafnvægi meira, blúsuðum dögum fækkar og þú verður orkumeiri. Þannig hættir líkamsræktin að vera kvöð og verður í staðinn eftirsóknarverður og ómissandi hluti af þínu daglega lífi.
Ávinningur 5
Þú eflir ónæmiskerfið
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að regluleg hreyfing eflir ónæmiskerfið! Þú verður ólíklegri til að veikjast, betur í stakk búinn til að takast á við veikindi og fljótari að ná bata!