Æskubrunnur, langlífi og lífsgæði
Í leit að betri lífsgæðum og aukinni lífsorku, er gjarnan litið framhjá einum mikilvægum þætti: líkamlegum styrk. Regluleg styrktarþjálfun með lóðum, annarskonar mótstöðuþjálfun og einnig með eigin líkamsþyngd getur heldur betur breytt leiknum og haft afskaplega jákvæð áhrif á lífsgæði okkar. Rannsóknir sýna að líkur á langlífi aukast umtalsvert með því að stunda markvissa styrktarþjálfun alla ævi.
Vöðvar eru “efnaskipta gjaldmiðill”
Í gegnum tíðina hefur gjarnan verið litið fyrst og fremst til hins útlitslega ávinnings sem heimsóknir í lyftingarsalinn hafa í för með sér, mótun lögulegra vöðva og minna mittismál. En það er aðeins toppurinn á ísjakanum, styrktarþjálfun gefur ótal eftirsóknarverðar afleiðingar jákvæðra þátta sem geta bætt líf þitt og líðan margfalt.
Vöðvakerfi líkamans er “efnaskipta gjaldmiðillinn” þinn og forðabúr fyrir amínósýrur. Vöðvamassinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki í baráttunni við bólgur í líkamanum. Vöðvar eru einnig einn helsti staður líkamans fyrir niðurbrot glúkósa, sem er mikilvægt til að koma í veg fyrir og snúa við insúlínviðnámi og jafnvel meðhöndla langvinna sjúkdóma s.s. sykursýki og vitræna hnignun.
Með því einfalda eigin framtaki að lyfta lóðum reglulega getum við eflt okkur margfalt og leyst úr læðingi krafta sem við vissum ekki að við byggjum yfir og upplifað líf fullt af orku, lífsþrótti, sjálfstrausti og seiglu.
Leystu úr læðingi innri orku
Mikið rétt, sýnilegir stæltir og mótaðir vöðvar þykir mörgum eftirsóknarverðir en eru aðeins yfirborðið. En hver vill ekki byggja upp aukið sjálfstraust, meiri orku og innri kraft? Styrktarþjálfun eflir okkur, gerir okkur hæfari til að sigrast á margskonar áskorunum og þrýsta okkur út fyrir þægindarammann. Þegar við lyftum þyngri lóðum verðum við smám saman vitni að því að jákvæðum breytingum á líkamanum og hugarfarið fylgir með. Tilfinningin um árangur og stolt sem fæst með því að sigra ný persónuleg met gefur okkur hvatningu sem seytlar hvarvetna inn í líf okkar.
Hinn sanni æskubrunnur
Langlífi og aukin lífsgæði á efri árum er markmið sem flestum okkar þykir eftirsóknarvert og styrktarþjálfun er e.t.v einn traustasti bandamaður okkar á því ferðalagi. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að regluleg mótstöðuþjálfun getur lengt líf okkar verulega. Við styrkjum bein og liði, aukum beinþéttni og vinnum að því að fyrirbyggja aldurstengda vöðvarýrnun. Með varðveitingu vöðvamassa líkamans og eflingu almennrar líkamsstarfsemi með reglubundnum lyftingaræfingum er okkur kleift að viðhalda lífsþrótti, krafti og sjálfstæði ævina út.
Allt að græða, engu að tapa
Aukinn styrkur er bara byrjunin. Áhrif styrktarþjálfunar ná langt út fyrir aukinn líkamsstyrk. Andlega líðan okkar nýtur ekki síður góðs af sem er sérlega þýðingarmikið og er mikil lífsgæðabót.
Fyrir utan hina augljósu ávinninga sem regluleg styrktarþjálfun gefur af sér, eru hér fjórir í viðbót sem þú vissir e.t.v. ekki af:
- Bætt heilastarfsemi: Styrktarþjálfun hefur verið tengd við betra minni, stuðning við vöxt og viðhald heilafrumna sem stuðlar að bættri heilastarfsemi og skarpari huga.
- Bætt geðheilsa og minni streita: Kröftugar styrktaræfingar losa endorfín gleðihormónið og draga úr streitu, sem sagt náttúrulegt þunglyndislyf sem byggir upp í okkur andlega seiglu og tilfinningalega vellíðan.
- Aukin orka og lífskraftur: Það hljómar þversagnakennt að með því að eyða orku endurnýjum við orkubirgðir okkar. Regluleg styrktarþjálfun bætir heilbrigði hjarta og æða, eykur þol og orku sem gerir okkur kleift að takast á við dagleg verkefni af meira kappi.
- Betri svefn: Sýnt hefur verið fram á að styrktarþjálfun bætir svefngæði og vinni gegn svefnleysi. Með því að stunda líkamlega hreyfingu stjórnum við dægursveiflu okkar betur, losum um spennu og streitu og stuðlum að betri nætursvefni.
Efldu líf þitt, þitt er valið!
Ef þú hefur lesið greinina hingað til ertu líkast til í startholunum að setja styrktaræfingar inn í daglegt líf þitt og það er einfaldara en þú heldur. Hér eru tillögur til að hjálpa þér að komast af stað:
- Leitaðu að faglegri leiðsögn: Ráðfærðu þig við þjálfara til að hanna persónulega æfingaáætlun sem hentar þínum markmiðum og getu. Það skiptir máli að viðhafa rétta tækni og lágmarka hættu á meiðslum. Í raun er lítið vit í að gera bara eitthvað.
- Byrjaðu smátt, finndu framfarir smám saman: Byrjaðu með léttari lóðum og einbeittu þér að því að ná tökum á réttum stöðum og tækni. Eftir því sem styrkur og sjálfstraust eykst skaltu smám saman auka þyngd og álag á æfingum þínum.
- Regluleg ástundun er lykilatriði: Gerðu styrktarþjálfun að föstum hluta af lífsstíl þínum. Miðaðu við 2-3 æfingar á viku til að sjá og finna breytingar með tímanum.
- Fjölbreytni kemur í veg fyrir stöðnun: Stundaðu fjölbreyttar æfingar til að þjálfa mismunandi vöðvahópa og halda æfingum þínum spennandi. Það er mikilvægt að stokka upp æfingakerfið mjög reglulega og forðast að nota sömu tækin og æfingar vikum og mánuðum saman. Fjölbreytileikinn er lykillinn að góðum árangri og ánægjulegum æfingum.
Lokaorð
Ljóst er að þetta styrkir sig ekki sjálft, það er undir okkur sjálfum komið. Verum sterk alla ævi. Því ekki að byrja strax í dag!
Ágústa Johnson