Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Af hverju gulrætur?

Næring

Það er um að gera að nýta sér gulrætur, þá góðu gjöf jarðar, á meðan færi gefst og jafnvel frysta skammta til vetrarmánaða (sjá leiðbeiningar hér fyrir neðan). 

Íslenskar gulrætur eru ekki aðeins meinhollar heldur eru þær ræktaðar hérlendis og skilja eftir sig lítið kolefnisspor. Sem betur fer njóta gulrætur sífellt meiri vinsælda í matargerð og finna má flotta aðalréttir á glæsilegum veitingastöðum þar sem gulrætur eru í aðalhlutverki. Það er um að gera að prófa sig áfram með gulrætur og hafa þær með í máltíðum. Til dæmis prufa persnesku eggjakökuna sem hér fylgir með sem uppskrift og inniheldur einungis hollt hráefni eins og egg, rúsínur og gulrætur eða gulrótarhummusinn sem passar vel með til dæmis hrökkbrauði. Það má grípa gulrætur með í nesti, naga þær eintómar og hráar, lauma þeim líka að börnum, vinum og vinnufélögum. Þær má líka pressa í safa, baka sem meðlæti, sjóða í súpur og neyta sem hráfæðis. Þær geta verið hluti af morgunverði þínum, hádegisverði, nestinu, millimálinu, forréttinum, aðalréttinum og eftirréttinum! 

Hér á eftir förum við betur yfir eiginleika gulrótarinnar, leiðbeinum þér um geymsluaðferðir og gefum tvær góðar og afar einfaldar uppskriftir af hollum mat sem inniheldur gulrætur. 

 

AF HVERJU GULRÆTUR?
Gulrætur eru meinhollar og heilsueflandi. Þær eru fullar af vítamínum, næringarefnum og trefjum. Sýnt hefur verið fram á að gulrætur geta dregið úr líkum á krabbameini, lækkað kólesteról í blóði, aukið grunnbrennslu líkamans (og stuðlað þannig að þyngdartapi), bætt ónæmiskerfið og dregið úr húðvandamálum, bætt heilastarfsemi og sjónina svo helstu dæmi séu tekin. 

Draga úr húðvandamálum…
Næringarefnin í gulrótum virðast að vera einstaklega góð fyrir húðina. Gulrætur innihalda C vítamín sem er vatnsleysanlegt vítamín og m.a. nauðsynlegt fyrir framleiðslu líkamans á kollageni. Kollagen gerir húðina stinna, teygjanlega og sterka. Að auki telst  C vítamín til andoxunarefna. Sýnt hefur verið fram á að andoxunarefni geta bundist sindurefnum og þannig komið í veg fyrir að sindurefnin skaði frumur líkamans, þ.m.t. húðfrumur. Þannig má segja að beta-karótín komi í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar. Þá hafa rannsóknir sýnt að karótínríkt mataræði getur varið húðina fyrir útfjólubláum geislum sólar og gerir hana að auki fallegri. Fólk sem er duglegt að borða litrík matvæli er ekki eins viðkvæmt fyrir sólarljósi og aðrir. 

Bæta ónæmiskerfið
Gulrætur innihalda karótín sem líkaminn breytir í A vítamín.  Bæði A og C vítamín eru andoxunarefni sem verja frumur líkamans og eru nauðsynleg fyrir ónæmiskerfið. Gulrætur eru einnig ríkar af B6 vítamíni. B6 vítamín er nauðsynlegt fyrir heilbrigt ónæmiskerfi líkamans. 

Bæta sjónina
Gulrætur eru ríkar af beta-karótíni sem gefur þeim appelsínugula litinn. Líkaminn breytir beta-karótíni í A vítamín. Skortur á A vítamíni getur lýst sér sem þurrkur í slímhúð, augnþurrkur, náttblinda og hornhimna augans verður hörð en það getur leitt til blindu. Slíkt má koma í veg fyrir, eða snúa við til betri vegar, með því að borða gulrætur eða annan mat sem ríkur er af A vítamíni eða beta-karótíni. Karótíníð geta einnig komið í veg fyrir að sjónin hrörni með aldrinum.

Draga úr líkum á krabbameini…
Sýnt hefur verið fram á að karótínríkt mataræði getur hjálpað til sem vörn líkamans gegn nokkrum tegundum krabbameins. Þar á meðal dregið úr líkum á krabbameini í maga, blöðruháls- og ristil krabbameini. Sömuleiðis virðast þær konur sem neyta karótíns í miklum mæli vera í minni hættu að fá brjóstakrabbamein. Frumrannsóknir hafa sýnt að gulrótarsafi getur drepið krabbameinsfrumur sem er góð vísbending um ágæti gulróta.

Lækka kólesteról í blóði
Margsinnis hefur verið sýnt fram á að hátt kólesterólmagn í blóði er stór áhættuþáttur fyrir hjartasjúkdóma. Sýnt hefur verið fram á að með því að neyta gulróta má lækka kolesteról gildi í blóði. 

Auka grunnbrennslu líkamans… 
Gulrætur innihalda lítið af hitaeiningum og kolvetni en eru stútfullar af öðrum hollum næringarefnum. Það er því tilvalið að bæta þeim við máltíðina, borða meira af þeim og minna af einhverju öðru í staðinn. Þó gulrætur innihaldi kolvetni þá hækka þær blóðsykurstuðul líkamans mjög lítið. Sætar gulrætur geta því komið sér afar vel fyrir fólk sem er með sykursýki eða á forstigi áunninnar sykursýki. Trefjarnar í gulrótum geta lækkað blóðsykur líkamans með því að hægja á meltingu sykurs og sterkju. Trefjarnar næra einnig góðu bakteríurnar í þörmunum og bæta þannig ónæmiskerfið. Því öflugra ónæmiskerfi, því heilbrigðari og þeim mun minni líkur eru á að þú veikist af sjúkdómi. Að auki örva trefjarnar heilbrigða og reglulegar hreyfingar þarmanna.



1) PERSNESK GULRÓTA OMMILETTA

3 msk smjör
2 laukar, meðalstórir, saxaðir
2 bollar rifnar gulrætur (eða skornar í fínlegar ræmur)
½ bolli fínt saxaðar döðlur
⅓ bolli þurrkaðar rúsínur
2 msk nýkreystur sítrónusafi
4 stór egg, létthrærð saman
½ tsk salt

Smjör til steikingar

Aðferð: Hitið smjörið á stórri pönnu á meðalhita. Bætið lauknum og gúlrótunum útí og mýkið á pönnunni í 5 - 10 mín. Setjið þá laukinn og gulræturnar í skál og bætið saman við döðlum, rúsínum og sítrónusafa. Hellið eggjahrærunni útí en passið fyrst að laukurinn og gulræturnar séu ekki of heitar. Saltið!


2) GULRÓTA HUMMUS - stór uppskrift, má deila í tvennt

500 gr  gulrætur (vel þrifnar með grænmetisbursta eða afhýddar og skornar langsumt í tvennt)
1-2 msk virgin kókosolía (sem hefur mildara bragð en ólívuolían)
Sjávarsalt (fínmalað)
2 msk tahini
1 hvítlauksgeiri 
2 msk sítrónusafi
1-2 msk bragðgóð extra-virgin ólívuolía
2 msk bolli vatn
Papríkuduft og/eða smátt söxuð steinselja til skrauts.

Aðferð: Hitið ofninn í 180 C. Blandið gulrótunum, kókosolíunni og salti (t.d. 1 tsk eða eftir smekk) saman í skál eða á bökunarplötu. Ristið/bakið í 45 mín í ofninum þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar og byrjaðar að brúnast. Hrærið 2-3x í blöndunni á bökunartímanum. 

Setjið mjúku, bökuðu gulræturnar í matvinnsluvél á meðan þær eru enn heitar (þó ekki brennandi heitar) og blandið saman við tahini, hvítlauk, sítrónusafa, ólívuolíu og vatn. Blandið þar til hummusinn er orðinn mjúkur. Braðgbætið með salti eftir smekk. 

Skreytið með steinselju og/eða papríku ef viljið.


Svona geymum við þær:
Býsna auðvelt er að geyma gulrætur. Garðyrkjubændur geyma gjarnan gulræturnar ofan í moldinni eins lengi og þörf krefur en þar geymast gulrætur sannarlega vel og lengi, jafnvel þó kólnar úti. 

Við hin sem stólum á bændurna um uppskeru og erum ekki enn farið að rækta í eigin garði, getum þó nýtt okkur ískápinn og frystikistuna og átt sætar og bragðgóðar gulrætur út veturinn.

Í KÆLISKÁP
Gulrætur geymast vel og lengi í kæli eða á köldum stað. Þá er best að vefja þær inn í viskastykki og reyna þannig að halda þeim í kulda og myrkri. Best er að skola þær ekki á undan. Í kæliskáp eða í öðru köldu rými geta gulrætur geymst í allt að tvo mánuði.

Í FRYSTINUM
Með örlitum undirbúningi af þinni hálfu geymast gulrætur furðuvel í frysti. 

Þvoðu nýuppteknu gulræturnar vel og vandlega, afhýddu ef þarf og skerðu grösin af. Brytjaðu gulræturnar niður í sneiðar eða teninga, eftir smekk. 

Leggðu þær í sjóðandi vatn í 3 mínútur og snöggkældu eftir það. 

Þegar gulræturnar eru orðnar kaldar aftur skaltu setja þær í poka eða önnur ílát og beint í frystinn. 

Ultrahuman - Sílesandi blóðsykursmælir

26.990 kr. 21.592 kr. -20%

Ultra Human Air - Snjallhringur Silver

64.990 kr. 51.992 kr. -20%

Fjórar vikur fjögur ráð

6.990 kr. 5.592 kr. -20%
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka