Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Lykillinn er styrktarþjálfun!

Hreyfing

Styrktarþjálfun er lykillinn að þínu besta formi.

Ekki festast í endalausum þolæfingum í þeirri trú um að það sé eina eða áhrifaríkasta leiðin að fitubruna.

Ávinningur styrktarþjálfunar er svo miklu meiri en bara stærri og sterkari vöðvar. Styrktarþjálfun eykur grunnbrennslu líkamans og er áhrifarík leið til að léttast. Með styrktarþjálfun eflir þú hjarta- og æðakerfið allt, bætir heilastarfsemina og vinnur á móti áunninni sykursýki, sem er ein stærsta heilsufarsógn okkar tíma. 

Heilsufarslegi ávinningurinn er heldur betur til staðar. Minna mittismál, skarpari hugur, sterkari bein, kröftugri vöðvar og öflugra hjarta! Þú ættir aldrei að sleppa styrktaræfingunum! 

Styrktarþjálfun er auk þess ein besta leiðin til að undirbúa líkamann fyrir þolþjálfun, eins og gönguskíði, hlaup og hjól. Það á við um alla, hvort sem þú ert byrjandi eða langt kominn í atvinnumennsku.

Ef þú ert byrjandi, getur áköf þolþjálfun reynst líkama þínum erfið til að byrja með og viðbrigðin verið ansi mikil fyrir líkamann. Sérstaklega ef þú ert að burðast með einhver aukakíló. Þolæfingarnar reyna á liðamót og bandvefi sem geta farið illa út úr þeim, sérstaklega ef hreyfingin er ný og/eða álagið mikið. Þetta þekkja margir af eigin raun, til dæmis þegar þeir byrja að hlaupa aftur eftir hlé og verkir í hnjám eða baki fara að láta á sér kræla.

Fullkomin lausn fyrir þig væri að fara rólega af stað í þolþjálfuninni og byrja á vandaðri og öflugri styrktarþjálfun. Með henni styrkir þú ekki einungis beinin og vöðvana, stóra og smáa, heldur styrkir þú líka bandvefi og liðamót. Þannig verður líkaminn þinn betur undirbúinn fyrir frekari áreynslu. Þolþjálfunin mun reynast þér auðveldari og líkur á verkjum, álagsmeiðslum eða slitum, verða minni. 

En við látum ekki staðar numið hér. Heilsufarslegi ávinningurinn heldur bara áfram að vaxa með aukinni styrktarþjálfun. Með auknum vöðvastyrk og sterkum liðamótum getur þú gert þolæfingarnar lengur og af meiri ákefð, án þess að eiga það á hættu að togna eða skaða þig við áreynsluna.

Ekki hugsa þetta frekar, gerðu styrktarþjálfun að föstum þætti í lífi þínu héðan í frá og um ókomna tíð!