Náðu markmiðum þínum í heilsurækt!
Nú er tíminn til að setja sér heilsuræktarmarkmið! Nokkur einföld og skotheld ráð!
Við eigum okkur flest draumamarkmið hvað varðar heilsurækt. Við viljum styrkja okkur, losna við aukakíló, bæta þolið, efla hreyfifærni, auka vellíðan eða eitthvað annað. Hvert sem markmiðið þitt er skiptir höfuðmáli að þú sjáir fyrir þér skýra og skemmtilega leið að því.
Nýttu þér þessi einföldu og skotheldu ráð sem munu hjálpa þér af stað og auka verulega líkurnar á því að þú náir árangrinum sem þú sækist eftir. Mundu að þegar þú byrjar að ná markmiðum þínum, sama hversu smá þau eru, eflist þú, sjálfstraustið eykst og þú fyllist eldmóði svo framhaldið verður auðveldara.
- Orðaðu markmiðið skýrt á þann hátt að þú eigir auðveldara með að ná því.
Ef markmiðið er að léttast skaltu umorða markmiðið í t.d. á þennan hátt:
Ég ætla ekki að neyta matar eða sætinda eftir kl. 19 á kvöldin.
Ef markmiðið er að drekka meira vatn ættirðu frekar ákveða að drekka þrjár fullar vatnsflöskur yfir daginn.
Ef markmið þitt er að hreyfa þig eitthvað daglega er áhrifaríkara að ákveða:
Ég ætla að hreyfa mig í a.m.k. 30 mín á dag. Í dag ætla ég að ganga Nes-hringinn eftir kvöldmat með fjölskyldunni. Á þriðjudag ætla ég í 50 mín hjólatíma í hádeginu o.s.frv.
Settu þér ramma og viðmið sem þú getur stuðst við. Ákveddu t.d. göngu- eða hlaupaleiðina fyrirfram eða mættu í tíma og fylgdu þjálfaranum, frekar en hafa allt opið. Þannig verður leiðin miklu skemmtilegri, auðveldari og árangursríkari heldur en þegar þú leggur af stað út í óvissuna. Auk þess upplifir þú skýrar að þú hafir lokið við það sem þú ætlaðir þér. Þú gerðir ekki bara eitthvað!
- Gerðu það sem veitir þér ánægju.
Það er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega þegar þú ert að koma þér af stað, að gera það sem þér þykir skemmtilegt og veitir þér ánægju.
Ekki eltast við það sem aðrir eru að gera eða þér finnst þú verða að gera. Þú þarft ekki að hlaupa upp fjöll eða taka þátt í maraþoni. Byrjaðu á því sem þér þykir skemmtilegt og hentar þér. Ef heilsuræktin veitir þér enga ánægju og þér þykir hún leiðinleg, muntu ekki endast. Ef þú ætlar að pína þig til að breyta mataræðinu og borða það sem þér þykir ekki gott, muntu heldur ekki endast.
- Það er mikilvægt að vera með gott fólk í kringum sig.
Æfðu hjá þjálfara sem höfðar til þín. Fáðu vini þína og fjölskyldu með þér í heilsuræktina. Hlustaðu á hljóðvörp og bækur, sæktu fyrirlestra, gerðu heilsurækt að umræðuefni í kaffistofunni og fáðu þannig hugmyndir og innblástur frá öðrum.
Allt verður miklu auðveldara og skemmtilegra með öðru góðu fólki!