Orkubiti á fjöllum
Ert þú á leið á skíði eða í langa og góða göngu?
Hér er uppskrift að ljúffengum og meinhollum orkubita sem einfalt er að útbúa og frábært að hafa með sem nesti.
Uppskrift
2 dl hrátt hunang
1 dl kókosolía
2 dl möndusmjör eða hnetusmjör
1-2 tsk salt (eftir smekk)
2 dl möndlur
3 dl hnetublanda að eigin vali (t.d. pecanhnetur, heslihnetur, brasilíuhnetur)
1 dl 70-80% súkkulaði
2 dl þurrkaðir ávextir (t.d. gráfíkjur/döðlur/þurrkaðar apríkósur)
2 dl rúsínur og/eða þurrkuð trönuber
4 dl hafrar
1 dl poppuð hrísgrjón (má alveg sleppa, en gefa skemmtilega áferð)
2 dl sesamfræ (eða önnur fræ, t.d. graskersfræ, hampfræ, hörfræ, chiafræ)
1 dl hörfræ (eða önnur fræ, t.d. graskersfræ, hampfræ, chiafræ)
2 dl kókosmjöl (sykurlaust)
¼ tsk Bourbon vanilla (eða 1-2 tsk vanilludropar)
Hitaðu ofninn í 160°C
Bræddu hunang, kókosolíu og möndlusmjör saman í potti og bættu salti saman við.
Grófsaxaðu möndlur og hnetur. Skerðu súkkulaði og þurrkaða ávexti í smærri bita, eftir þínum smekk.
Blandaðu möndlum, hnetum, súkkulaði, þurrkuðum ávöxtum, rúsínum/trönuberjum og öllum hinum þurrefnunum saman í skál. Hrærðu blönduna í pottinum saman við þurrefnin og blandaðu öllu vel saman. Helltu öllu saman á smjörpappírsörk á bökunarplötu og þjappaðu vel saman. Bakaðu í 15-20 mín.
-----
Áttu e.t.v. ekki allt til?
Nýttu þér það sem er til er heima og gerðu þína eigin útgáfu. Lykilatriði er að þú veljir það sem þér þykir gott. Betra er þó að hafa fjölbreytt úrval trefja í blöndunni, því fleiri tegundir af trefjum sem við neytum reglulega, því öflugra ónæmiskerfi! (Þurrkaðir ávextir, fræ og hafrar eru afar trefjarík fæða.)