Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Rútínur - gulls ígildi!

Hugur

Rútínur eru gulls ígildi þegar kemur að því að skapa sér nýjar og betri venjur!

Því miður er það staðreynd að flestum okkar reynist afar erfitt að innleiða nýjan vana og festa hann inn í daglegt líf okkar. Engan þarf að furða þegar litið er á helstu rannsóknir sem gerðar eru á hegðun fólks í heiminum í dag. Þær sýna okkur að rúmlega 50% af því sem við gerum dag hvern er gert af vana! 

Sérfræðingar í hegðun fólks segja að við mannfólkið séum þannig úr garði gerð að við stjórnumst af tilfinningum. Það sem lætur okkur líða vel er það sem við gerum oftast og verður að vana (jafnvel þó vermirinn sé stundum aðeins skammgóður). Ef við ætlum að ráðast í það að gera breytingar á venjum okkar og lífsstíl á hörkunni einni saman, er því miður líklegt að við gefumst upp. 

En örvæntum ekki, því það eru til margvísleg ráð til að breyta út af vondum vana og skapa sér nýjar og betri venjur.  Ein besta leiðin er að tengja þann nýja við annan vana sem þegar er til staðar í okkar daglega lífi. Hverjar eru þínar daglegu venjur?

Byrjar þú alla morgna á því að fara í sturtu og/eða hellir þér upp á góðan kaffibolla? Ferðu út að ganga með hundinn og/eða hlustar á morgunútvarpið?

Sem dæmi. Ef þig langar að gera hugleiðslu að hluta af þínu daglega lífi skaltu prufa að tengja hana við til dæmis sturtu- eða baðferðir þínar. Þú getur ákveðið að byrja að hugleiða í sturtunni eða þær 2-5 mínútur sem það tekur sturtuna að hitna eða renna í baðið. Þú getur líka ákveðið að gera styrktaræfingar eða hreyfiteygjur á meðan þú bíður eftir að kaffið verði tilbúið! Eða bætt við 10 mínútna æfingalotu eftir að hafa farið út að ganga með hundinn. (Á Instagrammi Hreyfingar @hreyfing finnur þú margskonar 10 mínútna æfingalotur frá þjálfurum okkar sem þú getur nýtt þér.) 

Rútínur geta verið margvíslegar, sumir hafa þegar skapað sér góða morgunrútínu og byrja alla morgna eins. Sífellt fleiri hafa komið sér upp góðri svefnrútínu og mörgum reynist vel að stunda sömu æfingarútínuna viku eftir viku. En rútínur hafa margvíslega aðra kosti í för með sér en bara þann að hjálpa þér að innleiða og stunda góðar venjur. Hér eru nokkur önnur atriði nefnd sem vísindin hafa sýnt að til dæmis dagleg morgunrútína skili þér. 

MORGUNRÚTÍNA - 6 ávinningar 

Ávinningur 1 - Þú gerir daginn betri
Það sem þú gerir á morgnana, mun hafa áhrif út daginn. Skapaðu þér notalega, upplífgandi og hvetjandi morgunrútínu og vittu til, dagurinn verður betri! 

Ávinningur 2 - Þú eykur afköst þín
Þegar þú byrjar daginn vel gengur þér betur að leysa þau verkefni sem bíða þín. Þú kemur þér fyrr að verki, heldur einbeitingunni betur og ert líklegri til að ljúka verkefnunum í stað þess að fara úr einu í annað án þess að klára. 

Ávinningur 3 - Þú ert við stjórn
Þó morgunrútínan sé stutt þá eykur hún þá tilfinningu hjá þér að þú sért við stjórn þann daginn. 

Ávinningur 4 - Þú minnkar streituna
Streita eykst þegar okkur líður eins og við höfum ekki nægan tíma fyrir verkefni dagsins eða þú veist ekki hvað þú átt að gera næst.  Þegar þú kemur þér upp rútínu getur þú framkvæmt hugsunarlaust og veist alltaf hvað þú átt að gera næst.  

Ávinningur 5 - Þú skapar þér heilbrigðari venjur
Á morgnana getur verið freistandi að “snúsa” og draga það á langinn að fara á fætur. Þegar þú kemur þér upp rútínu verður auðveldara að innleiða heilbrigðar venjur og því allar líkur á því að lífsstíll þinn verði smám saman betri og heilbrigðari. 

Ávinningur 6 - Þú verður orkumeiri
Á morgnana erum við gjarnan orkulítil. Það góða við morgunrútínur er að við getum gert haft þær upplífgandi, þannig að þær gefi okkur orku. Til dæmis með því að stunda líkamsrækt á morgnana, fara í kalda sturtu, næra okkur vel og sleppa því að skrolla í símanum! 

Til baka
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka