Sannleikurinn um fæðubótaefni
Markaðssetning fæðubótaefna er mikil hér á landi og margir farnir að tengja þau við árangur í líkamsrækt. Fæðubótaefni fara í gegnum matvælaeftirlitið en ekki lyfjaeftirlitið og því er ekki eins strangt eftirlit með hvað efni þau innihalda.
Margar rannsóknir sem hafa verið gerðar á fæðubótaefnum eru greiddar eða framkvæmdar af framleiðanda og því erfitt að meta efnin eingöngu út frá þeim rannsóknum. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni vantar ennþá góðar rannsóknir um áhrif margra fæðubótaefna á líkamann. Því er best að fara varlega og fara ekki út í neinar öfgar.
Fæðubótaefni eru fyrst og fremst sett á markað fyrir „afreksfólk“ í íþróttum eða þá sem þjálfa mikið og ná ekki að fá nægilegt magn af orku frá fæðunni. Ef við borðum samkvæmt manneldismarkmiðum og æfum 3 klukkustundir á dag eða minna ættum við ekki að þurfa á aukaefnum að halda. Fyrir okkur Íslendinga er D-vítamín undanskilið þar sem okkur vantar SÓL.
Til umhugsunar
- Matur sem næst upprunanum er hollastur. Við vitum að pakkasúpa er ekki eins holl og súpa sem við gerum sjálf úr fersku hráefni. Fæðubótaefni er duft en ekki hrein fæða.
- Reynum að fá vítamín úr fæðunni. Ef við vitum að okkur vantar vítamín er auðvitað betra að taka þau inn í formi vítamína eða fæðubótaefna ef við náum ekki að fá nægilegt magn úr fæðunni.
- Prótein í dufti inniheldur kaloríur! Þegar við drekkum kaloríur eins og gosdrykki eða próteindrykki gerir líkaminn sér ekki grein fyrir að við erum að drekka kaloríur og við verðum ekki södd.
Ef þú borðar próteinríkan mat og stundar leikfimi 1 klukkutíma á dag eru mjög litlar líkur á því að þú hafir ekki nægilega mikið prótein til að byggja upp vöðvana.
Vertu meðvituð/meðvitaður um fæðuna sem þú velur fyrir líkamann þinn og hafðu heilbrigða skynsemi að leiðarljósi!