Styrktarþjálfun, trompið og að eldast frábærlega!
„Vöðvarnir þjálfa sig ekki sjálfir. Ef við ekki þjálfum þá samviskusamlega, rýrna þeir og allar líkur á að við koðnum niður smám saman. Því betri rækt sem við leggjum við líkamann, því betur blómstrar hann og bætir líf okkar og lífsgæði,“ segir Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar í sínum nýjasta pistli á Smartlandi:
Vöðvamassi er „brennsluvefur“
Segja má að vöðvamassi sé uppspretta langlífis. Vöðvar eru undirstaða efnaskiptaheilsu, gegna fjölmörgum mikilvægum hlutverkum í líkamanum auk þess að vera virkur „brennsluvefur“. Því betur sem þú þjálfar vöðvana, því örari er grunnbrennsla líkamans.
Styrktarþjálfun bætir og breytir lífinu. Viltu geta leikið þér alla ævi, stundað útivist, klifið fjöll eða prófað eitthvað enn meira krefjandi og ævintýralegra? Þú vilt væntanlega að vöðvarnir þínir hafi það sem til þarf, svo þú getir gert allt það sem þig langar að gera.
Skiptir þig máli að hugurinn sé skarpur, líkaminn sterkur, hraustur og til í allt, bakið beint, skrefin rösk, þrekið gott og fasið unglegt, alla ævi?
Við vitum að regluleg styrktarþjálfun ásamt nægri próteinneyslu stuðlar að sterkari vöðvum, stæltari líkama, heilbrigðari samsetningu líkamans, uppbyggingu og meiri lífsgæðum. En þar með er síður en svo allt upp talið.
Heilsufarslegur ágóði af reglulegum styrktaræfingum er einfaldlega gríðarlegur og ómetanlegur. Það besta er, sama á hvaða aldri þú ert, þá er aldrei of seint að byrja.
Það kann að koma þér skemmtilega á óvart að ...
- Með markvissri styrktarþjálfun eykst hæfni líkamans. Hann vinnur t.d. betur úr kolvetnum sem getur þ.a.l. verið forvörn gegn sykursýki 2.
- Skipulegar lyftingar geta viðhaldið og aukið testósterónmagn líkamans sem annars fer minnkandi með aldrinum.
- Virkni heilans eflist með því að setja reglulega álag á vöðva líkamans. Hver vill ekki hafa heilann í toppformi?
- Það er nóg að lyfta markvisst í 20-30 mín 2x í viku til að uppskera árangur sem getur lengt líf þitt, bætt heilsu og lífsgæði ævina út.
- Þegar þú lyftir lóðum verða til nýir hvatberar í vöðvafrumum. Vísindamenn telja að hvatberar (mitochondria) spili stórt hlutverk í að hægja á öldrun, jafnvel mun meira en áður var talið. Með reglulegum lyftingum stuðlum við að aukinni framleiðslu nýrra vöðvafrumna í líkamanum og bætum vefi líkamans. M.ö.o. við endurnýjum vefi líkamans hraðar en ella.
Varahlutir fást ekki á netinu
Það blasir við okkur að við ættum öll að styrkja vöðva líkamans með hnitmiðuðum hætti alla ævi. Styrktarþjálfun er í raun leiðin til að halda okkur við eins og kostur er, ævilangt. Sumir sinna viðhaldi heimilisbílsins betur en eigin kroppi, sem er galið, því hægt er að kaupa nýjan bíl en þessi eini skrokkur verður að duga okkur út lífið, varahluti pantar maður ekki á netinu.
Við erum þó heppin, sumt sem miður fer af völdum okkar eigin lífsstíls má e.t.v. laga að einhverju leyti með lyfjum, en alls ekki allt. Heilbrigð skynsemi segir okkur að vitaskuld ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að rækta af alúð líkama og sál. Ljóst er að enginn getur gert það fyrir okkur.
Styrktarþjálfun trompar
Eins og við vitum eru mikilvægustu þættirnir góð næring, nægur svefn og regluleg þjálfun. Fjölbreytt þjálfun er vissulega æskilegust, bland af þol-, styrktar-, liðleika- og jafnvægisæfingum. En styrktarþjálfun er „trompið“ ef svo má segja, og ætti að vera eins sjálfsagður liður í lífinu og að drekka vatn. Með vel skipulagðri styrktarþjálfun getur þú einnig þjálfað þol, liðleika og jafnvægi.
Byrjaðu rólega og efldu þig smátt og smátt svo fyrr en varir áttu auðvelt með kröftugar 20-30 mínútna styrktaræfingar 2-3x í viku.
Bestur árangur næst ef þú reynir vel á þig, áreynsla er lykill að framförum. Hvíld eða létt æfing er nauðsynleg daginn eftir lyftingaæfingu til að leyfa ónæmiskerfinu að vinna sína vinnu. Þegar þú hefur byggt þig upp nægilega ættirðu að prófa HIIT (High Intensity Interval Training) æfingar eða stuttar mjög krefjandi áreynslu lotur með hvíld á milli. Rannsóknir hafa sýnt að sé tilgangurinn með æfingunum einfaldlega að viðhalda almennu hreysti og styrk er ekki þörf á 45-60 mín æfingum. Það dugar vel og gefur góðan árangur að taka markvissar styttri æfingar með hressilegri ákefð, hækka hjartslátt og láta líkamann finna fyrir álagi.
Ekki gera bara eitthvað
Njóttu lífsins til hins ýtrasta, notaðu þennan eina líkama sem þú átt, styrktu hann á allan máta fyrir lífið.
Tærasta snilldin er sú staðreynd að við getum sjálf haft heilmikil áhrif, stuðlað að langri ævi við góða heilsu með virkum lífsstíl flesta daga ársins.
Leitaðu þér upplýsinga hjá fagfólki til að fá vel skipulagt styrktaræfingakerfi sem hentar þér og vinnur með þína styrkleika og veikleika. Mættu í lyftingasalinn með vel samsetta æfingaáætlun. Flestir sem setja saman sín eigin æfingakerfi vanrækja æfingarnar sem þeir þurfa mest á að halda. Þú ert EKKI ein/n í þeirri stöðu að vita ekki hvernig á að bera sig að í tækjasal. Leitaðu ráða hjá þjálfara.
Dragðu það ekki degi lengur, byrjaðu að lyfta lóðum strax í dag. Þú mátt til!