Fara yfir á efnissvæði
Kaupa kort
Mínar síður
Tímatafla
Til baka

Styrkur og stöðugleiki - aukin lífsgæði eftir fimmtugt

Hreyfing

Til þess að geta notið lífsins er grundvallaratriði að halda heilsunni góðri, bæði líkamlegri og andlegri. Það gerum við með því að hugsa vel um okkur. Borða næringarríkan mat, umkringja okkur góðu fólki, finna hreyfingu sem hentar og að stunda styrktarþjálfun, í góðu umhverfi með góðu fólki og undir stjórn fagmanna ef þess er kostur. 

Sterkari vöðvar = sterkari bein

Eftir fimmtugt byrjar þú að missa vöðvamassa hraðar og líkamlegur styrkur þinn verður minni. Styktarþjálfun er því sérstaklega mikilvæg eftir fimmtugt. Besta leiðin til að koma í veg fyrir tap á vöðvamassa er að lyfta lóðum og gera styrktaræfingar 2 - 3 sinnum í viku. Þú ert ekki aðeins að styrkja vöðvana heldur einnig beinin, bætir jafnvægi þitt og lífsgæði margfalt. 

Þegar við vorum yngri skipti líkaminn út slitnum beinfrumum með nýjum, sterkum beinfrumum. Þegar þú ert komin/n yfir fimmtugt ertu með fleiri niðurbrotnar beinfrumur en hægt er að skipta um. Þetta þýðir að bein þín verða náttúrulega veikari. Þyngdar- og styrktaræfingar eins og gönguferðir og lyftingar geta einnig styrkt beinin þín. Stefndu að því að halda styrknum við, öll þjálfun á að vera þægileg og láta okkur líða vel. 

Með því að auka vöðvamassann notum við meiri orku í hvíld sem leiðir til fitutaps. Með aldrinum eykst innri fita eða í kringum innyflin sem er hættulegra hjarta- og æðasjúkdómum en fita undir húðinni. Styrktarþjálfun unnin í langan tíma á lágum púls er mjög ákjósanlegt fyrir þau sem vilja minnka fitu og auka úthaldið.

Finndu þinn innri íþróttaálf

Við erum ekki öll íþróttaálfar og þurfum oft hvatningu til að koma okkur af stað. Þegar þú skráir þig á lokað námskeið þá áttu alltaf fastan tíma til að mæta í. Þú átt þitt pláss með þínu fólki, kennarinn er með áætlun og markmið um að kenna ákveðnar æfingar til að bæta líkamsstöðu, bæta tækni í æfingum, fræða þig um líkamsrækt og þjálfun.

Svo æfingar geti skilað góðum árangri þá krefjast þær þess að þær séu gerðar rétt og þess vegna er mikilvægt að læra æfingar rétt, stig frá stigi og byggja sig upp smátt og smátt. 

Ekki hugsa um hvað manneskjan við hliðina á þér er með þungt eða létt lóð. Hugsaðu um þinn líkama og gerðu eins og hann þolir. Þú verður í þínum líkama alla ævi en ekki í líkamanum hjá manneskjunni við hliðina á þér.

Það geta allir hreyft sig - aðlagaðu hreyfingu að þér

Námskeiðið Hreyfing & vellíðan hefur verið undir minni stjórn í um áratug og er fyrir þá sem vilja markvisst bæta sína heilsu en hentar líka vel einstaklingum með ýmis stoðkerfisvandamál. Tímarnir eru krefjandi og taka vel á en áherslan er á að kenna fólki að beita sér rétt við æfingar þrátt fyrir einhver vandamál, breyta æfingum, gera minna eða í sumum tilfellum meira. Það er hægt að vera með vandamál á einum stað en það þarf ekki að hafa áhrif á getu á öðrum stöðum í líkamanum. Það er oft erfitt fyrir fólk að aðlaga æfingar, mörgum finnst þeir vera að svindla eða ekki gera nægilega mikið. Ég legg mikið upp úr líkamsstöðu og réttri tækni í kennslunni. 

Fólkið mitt á námskeiðinu er á mjög misjöfnum stað en allir eru að hugsa um sig og sína vellíðan. Þjálfun á að láta þér líða vel og þess vegna langar þig að mæta, áherslan á  ekki að vera á að missa aukakíló, þyngja lóðin eða líta ákveðið út. Svo kemur það skemmtilega á óvart þegar maður getur meira en áður og líður betur á líkama og sál.

Á námskeiðinu notum við volgan (infra) sal sem er hitaður sérstaklega fyrir liðina á okkur.  Við notum gjarnan stöng sem er við speglana, til að hjálpa til við góða líkamsstöðu og skemmtilegar styrkta-, jafnvægis- og liðleikaæfingar.

Námskeiðið er 2x í viku þar sem í öðrum tímanum er meiri áhersla á styktarþjálfun en liðkandi æfingar og jafnvægi í þeim seinni. Margir sem eru á námskeiðinu mæta einnig i opna tíma og í tækjasalinn. Það er ekkert skemmtilegra en að heyra fólk segja frá því að það gat eitthvað sem það hefur ekki getað gert lengi. Betra jafnvægi í göngum um hálendið, betri í golfi, getur fært til húsgögn, átt auðveldar með að leika við barnabörnin eða lyfta kössum.

Það er nefnilega þannig að það sem þú notar ekki hættir að virka, hreyfðu þig og styrktu eins og þú getur því það marg borgar sig.

Notalegt og hvetjandi andrúmsloft

Hreyfing er falleg og notaleg stöð þar sem öll aðstaða og snyrtimennska er til fyrirmyndar. Góður andi er í húsinu og vinalegt viðmót. Mikið af hóptímakennurum og þjálfurum hafa starfað í mörg ár og er mjög fjölbreyttur hópur fólks bæði að æfa og kenna. Æfing dagsins er mjög félagsleg og þá sérstaklega fyrir fólk sem er hætt að vinna. Í Hreyfingu er hugguleg setustofa þar sem kunningjar og jafnvel vinir sem þú æfir með, bíða eftir þér. Heitu pottarnir, gufan, kaffibollinn og spjallið á eftir. Andrúmsloftið er notalegt og það er hvetjandi að mæta.  


"Sandra er sjúkraþjálfari, fyrrum landsliðsþjálfari í áhaldafimleikum, hóptímaþjálfari og kennari á námskeiðinu Hreyfing & vellíðan í Hreyfingu"

Til baka
Til baka
Til baka
Til baka
Til baka