Svona losar þú þig við sykurlöngunina - 8 góð ráð
Það getur reynst þrautinni þyngri að losa sig við sykurlöngunina fyrstu dagana eftir páska. Hömlurnar sem áður voru til staðar virðast foknar út í veður og vind og áður en maður veit af er höndin komin á kaf í páskaeggið á ný. Og það svo allt í einu búið! En það er líka alveg magnað hversu stuttan tíma það í raun tekur að snúa dæminu við og losa okkur við sykurlöngunina eða í það minnsta, draga all verulega úr henni.
Til þess eru mörg hjálpartól til sem kjörið er að vita af og nýta sér þegar þörf er á. Þessi virka vel!
- Slepptu sykri alveg í ákveðinn tíma
Ok, þetta fyrsta er mögulega ekki það sem þú vildir heyra og því ákveðinn skellur! En, í sannleika sagt hefur sú leið að sleppa sykrinum alveg í ákveðinn tíma (a.m.k. 10 daga) reynst mörgum afar vel og skilað langvarandi ávinningi. Eftir að hafa sleppt sykruðum matvælum, drykkjum og/eða sælgæti í tiltekinn tíma verður jafnvel aldrei aftur snúið.
Mundu að fyrstu dagarnir eru erfiðastir en svo verður ferlið auðveldara ólíkt t.d. fjallgöngu sem getur verið auðveld fyrst og svo sífellt erfiðari. Við það að sleppa sykrinum alveg átt þú margt gott í vændum. Þú mátt eiga von á því að þú sofir betur, orkan þín yfir daginn aukist, skapið verði betra og sykurlöngunin minnki og jafnvel hverfi alveg. Margir upplifa það að bragðlaukarnir breytist þannig að það sem áður var nokkuðu bragðdauft verður ljúffengt og sætt á bragðið og það sem áður var eftirsóknarvert (sælgæti, sykraðir safar og fleira) verður allt of sætt á bragðið og hreinlega ekki bragðgott lengur.
- Sofðu vel
Rannsóknir sýna að þegar við erum þreytt, höfum sofið illa eða of stutt, verður löngunin í sykur meiri og geta okkar til að standast freistingarnar mun minni. Gott ráð er því að hafa svefninn í lagi. Það er auðvelt að nálgast gott og auðlesið fræðsluefni um svefn í dag, við ættum öll að skilja svefn og tileinka okkur góðar svefnvenjur. Við mælum með bókinni Af hverju sofum við? eftir Dr. Matthew Walker og sömuleiðis bókinni Svefn eftir Dr. Erlu Björnsdóttur.
- Stundaðu reglubundna hreyfingu
Næst þegar þig langar í eitthvað sætt skaltu prufa að hreyfa þig í staðinn. Slepptu sælgætinu og farðu í göngutúr í staðinn eða taktu æfingu! Við hreyfingu losar líkaminn vellíðunarhormón sem slekkur á lönguninni í sætindi. Eftir hreyfingu ertu ólíklegri til að falla í freistni.
- Haltu blóðsykrinum jöfnum
Miklar, óreglulegar og langar sveiflur í blóðsykri vegna mataræðis, eru ekki af því góða. Þegar þú neytir próteinríkrar fæðu umfram sykraðrar fæðu úr einföldum kolvetnum dregur þú úr sveiflunum og þar með úr lönguninni í sykur. Þú getur prófað Veri sílesandi blóðsykursmælinn og séð með honum svart á hvítu hvaða áhrif matvælin sem þú neytir dags daglega hafa á þinn blóðsykur. Við erum öll einstök hvað þetta varðar.
- Borðaðu náttúrulega fæðu
Þú þarft að borða fitu og prótein. Matvæli sem líta út eins og þau koma frá náttúrunnar hendi eða eru afar lítið unnin, eru þau sem þú átt að velja þér. Flókin kolvetni sem þú færð úr grænmeti, hnetum, baunum, linsum og fræjum eru holl kolvetni og góð fyrir þig. Mikið unninn matur sem fullur er af sykri og gerviefnum er ekki raunveruleg næring. Slík “matvæli” eru gjarnan þróuð með það í fyrir augum að verða ávanabindandi.
- Dragðu úr streitu
Undir álagi verður oft löngunin í óhollustu meiri. Auk þess veldur streita því að við stöndumst síður freistingar. Veittu þessu athygli og reyndu að bregðast við með öðru en sælgæti, t.d. öndunaræfingum, slökun, hugleiðslu, góðu spjalli við skemmtiegan vin eða öðru.
- Veittu því athygli hvaða matvæli það eru sem draga fram sykurlöngunina
Eins furðulega og það kann að hljóma er býsna algengt að fólk verði sólgið í matvæli sem það hefur í raun óþol fyrir, eins og t.d. mjólkurvörur, glútein og sykur!
- Bætiefni sem draga úr sykurlöngun
Sýnt hefur verið fram á að þegar við tökum inn D-vítamín og Omega 3 (sem algengt er að við fáum of lítið af) dragi það úr löngun í sykur.
Mundu að fyrstu dagarnir eru erfiðastir þegar kemur að því að gera breytingar á lífsstílnum en svo verður það bara auðveldara og auðveldara þar til breytingin er orðin að vana og þar með áreynslulaus. Þar að auki er það nú svo að þegar þú hefur dregið verulega úr sykurneyslunni aðlaga bragðlaukarnir sig að því nýja og þér fer að þykja það sem þér áður þótti þvílíkt lostæti allt of sætt og þú finnur bragð af því sem áður var bragðdauft.