Svona nærðu árangri í líkamsrækt
Draumamarkmiðið er í raun röð smærri markmiða.
Það sem skilar mestum árangri í heilsurækt er að hluta stór markmið niður í smærri, viðráðanleg skref. Það er lykillinn að árangri í heilsurækt! Of stór og óraunhæf markmið þyngja hugann og hafa öfug áhrif, þau draga úr innri hvata frekar en auka hann.
SVONA NÆRÐU ÁRANGRINUM!
Með sífelldri röð ákvarðana og aðgerða yfir daginn skapar þú þér þinn lífsstíl.
Hvað gerir þú þegar þú vaknar á morgnana?
Hvað gerir þú á daginn?
Hverjar eru hugsanir þínar yfir daginn?
Forðastu að setja þér markmið sem kalla á algjöra umbreytingu eða byltingu í lífsstíl þínum. Byrjaðu smærra. Hugsaðu með þér að þú sért að fínstilla daglegar venjur þínar og ákvarðanir.
Bara þessi einfalda aðferð, sem felur í sér að vera meðvituð/aður um daglegar athafnir sínar og að hugsa um að betrumbæta þær örlítið í einu, mun skila þér margfalt skjótari, betri og meiri árangri. Skjótari af því þú munt ekki gefast upp um leið. Betri af því að smáu breytingarnar munu fljótt verða að varanlegum vana. Meiri af því að um leið og þú ferð að finna muninn, þó lítill sé í byrjun, muntu veðrast upp, innri hvatinn eflast og þú verður ákafari í því að gera fleiri breytingar!
Ef þú ert á algjörum byrjunarreit og vilt koma þér af stað skaltu hugsa skrefin það smá að það taki því ekki að sleppa þeim! Til dæmis að ganga í 5 mín á stigvélinni okkar á dag eða skjótast út í 10 mín göngutúr. Ástæðan er sú að þegar þú endurskipuleggur markmiðin þín og gerir þau það smá að það tekur því ekki að sleppa þeim, muntu standa við þau. Þegar þú stendur við markmið byggir þú upp sjálfstraustið, sjálfsmyndin verður betri og sterkari og vellíðanin sem því fylgir verður að hvatningu til að halda áfram á sömu braut og gera enn betur. Það sama gerist þegar þú ferð svo að finna mun á þér. Því meira sem þér líður eins og þú sért að ná árangri því sterkari verður löngunin í að ná enn lengra, enn stærri markmiðum.
Þetta er lykillinn að árangri í líkamsrækt!