Tími til að endurmeta
Um hver áramót er mikið rætt og ritað um kúnstina að setja sér markmið. Það er gott og blessað enda eru góð markmið um bætta heilsu allra góðra gjalda verð.
Það fer þó minna fyrir því skrefi sem kemur fljótt eftir að markmiðin hafa verið sett, en það er eftirfylgnin.
Að endurmeta markmið sín reglulega er mjög mikilvægt. Ef þú hefur mælikvarða á markmiðin þín geturðu betur sett fingurinn á hvernig til hefur tekist undanfarnar vikur. Dæmi um slík markmið gætu verið líkamleg niðurstöðumarkmið sem gætu verið allt frá því að ná að halda þyngd, léttast eða bæta við vöðvamassa. Önnur markmið tengd frammistöðu eru líka algeng, en það væri t.d. að geta hlaupið vissa vegalengd á ákveðnum tíma eða lyft vissri þyngd ákveðið oft.
Enn aðrir mælikvarðar, sem líka geta verið mikilvægir eru mæting og svefntímar og markmið tengd næringu. Allt til þess fallið að byggja undir árangurinn af þjálfuninni.
Einfaldlega vegna þess að lífið hefur lag á að breyta aðstæðum og það sem við gerum dags daglega hefur áhrif á okkur (þjálfun eða ekki) er á nokkurra vikna fresti tilefni til þess að skoða og endurstilla markmiðin sín.
Erum við búin að missa dampinn?
Við erum bara einni æfingu frá því að vera komin aftur á rétt skrið – koma svo!