Uppskriftir og innihald
Það er mikil vinna að breyta um lífstíl ef það á að breyta öllu í einu - EN margt smátt gerir eitt stórt.
Smátt og smátt getum við breytt uppáhaldsuppskriftum fjölskyldunnar og gert þær hollari. Ef við erum vön að borða allt sætt eða setja sósur (sama bragðið) yfir allan mat verðum við háð bragðinu. Venjum okkur á bragð af mat með minni sykri.
Hér eru nokkur dæmi um það hvernig við getum gert máltíðirnar hollari:
- Ef þú ert vanur/vön því að borða bragðbættar mjólkurvörur, sem innihalda oft mikinn sykur, er gott ráð að blanda saman hreinu vörunni og þeirri bragðbættu og minnka þannig magn viðbætts sykurs.
- Notaðu gróf hrísgrjón, bygg, kúskús og gróft pasta í stað þess að nota hvít hrísgrjón og borðaðu minna af því í hverri máltíð.
- Notaðu ofnin meira og steiktu minna. Ekki djúpsteikja mat eða kaupa mat sem er djúpsteiktur.
- Kryddaðu matinn með þurrkryddi og hafðu sósuna til hliðar fyrir þá sem vilja. Oft er kjötið mjög gott ef það er kryddað og þarf enga sósu.
- Skiptu kartöflum út fyrir sætar kartöflur, brokkólí, rósakál eða annað grænmeti sem er gott að hita.
- Borðaðu grænmeti sem ferskast og hafa það ávallt ⅓ af disknum.
Hvað er innihald vörunnar?
Annað mikilvægt skref í að bæta lífsstíl er einfaldlega að lesa hvað innihald vörurnar er sem við kaupum. Markaðssetning getur verið mjög villandi og þó að varan sé sykurlaus getur hún verið óholl. Sem dæmi má nefna að vörur sem eru merktar „fat free“ innihalda oft mikinn sykur. Það er skylda framleiðenda að setja það innihaldsefni sem mest er af fremst í innihaldslýsinguna. Margir neytendur vita af þessu og passa að sykurinn sé ekki meðal fimm fyrstu innihaldsefnanna. Vert er að athuga að í sumum vörum eru þá í staðinn settar átta gerðir af sykri sem gerir það að verkum að sykurinn færist neðar á listann.
Það skiptir máli hvernig kolvetni við borðum. Við viljum borða trefjar og flókin kolvetni en ekki einföld kolvetni. Flókin kolvetni (fjölsykur) fara hægar gegnum meltingarveginn. Dæmi um flókin kolvetni er gróft hrökkbrauð, hafrar og frægrautar.
Það er staðreynd að ávextir innihalda meira af sykri en grænmeti, og fyrir það hafa ávextirnir oft fengið slæma umfjöllun. En því má ekki gleyma að ávextirnir innihalda líka mikið af trefjum og vítamínum.
Til samanburðar inniheldur epli 13g af sykri en lítill M&M poki 65g. Ber eins og jarðaber, hindber, og bláber innihalda einungis 6-9g af sykri, miðað við 100g.
Ávextir: Magn af sykri (miðað við 100g)
Epli = 13,3g
Banani = 15,6g
Ber = 6-9g
Vínber = 18,1g
Melóna = 8-9g
Mangó = 14,8g
Þurrkaðir ávextir = 45-70g
Sælgæti: Magn af sykri (miðað við 100g)
M&M = 65g
Skittles = 76g
Mjólkursúkkulaði = 51g
Lakkrís = 43g
Hlaup = 44g
Venjum okkur á bragð af mat með minni sykri!