Hreyfingarsiðir
Svo hægt sé að tryggja einstaka upplifun sem einkennist af góðri orku og framúrskarandi æfingaumhverfi biðjum við okkar meðlimi að virða ávallt eftirfarandi siðareglur.
KLÆÐABURÐUR
Einungis viðeigandi íþrótta- og skófatnaður er leyfilegur í Hreyfingu á æfingasvæðum. Ekki er heimilt að vera berfættur eða á sokkum á æfingasvæðum, einungis í íþróttaskóm. Ekki er heimilt að vera í gallabuxum, útiskóm, ber að ofan o.þ.h.
Leyfilegt er að vera berfættur og á sokkum í búningsklefum, á útisvæði, í spa og hóptímum og námskeiðum þar sem er tekið fram.
TÆKJASALUR & ÆFINGABÚNAÐUR
Þegar búið er að nota tæki og búnað, vinsamlegast þurrkið af og skilið á viðeigandi stað. Höldum tækjunum snyrtilegum og þurrkum af þeim eftir notkun. Hvetjum meðlimi til að deila búnaði með öðrum, t.d. á milli setta.
Við kappkostum við að hafa tækjabúnað og aðstöðu til fyrirmyndar. Ef eitthvað er ábótavant vinsamlegast látið móttöku Hreyfingar vita.
SÍMANOTKUN OG MYNDATÖKUR
Vinsamlegast hafið í huga friðhelgi annarra meðlima og áreitið sem fylgir símanotkun. Hreyfing er griðarstaður og við biðlum til meðlima að halda símanotkun í lágmarki.
Vinsamlegast haldið símanotkun í lágmarki í tækjasal þar sem aðrir meðlimir gætu verið að bíða eftir að nota búnað. Nota skal heyrnatól fyrir persónulega hlustun. Símanotkun er ekki leyfileg í opnum hóptímum og á námskeiðum þar sem það getur haft truflandi áhrif á aðra meðlimi.
Óheimilt er að taka myndir eða myndbönd þar sem aðrir meðlimir eru í augnsýn.
Það er með öllu óheimilt að hafa símtæki uppi við í búningsklefum, á útisvæði og í spa.
VIRÐING OG JÁKVÆÐ SAMSKIPTI
Sýnum öðrum ávallt virðingu, kurteisi og tillitsemi. Höfum jákvæðni og góða orku í samskiptum að leiðarljósi. Óviðeigandi hegðun, óvirðing og hvers kyns ofbeldi verður ekki liðið undir neinum kringumstæðum.
PERSÓNULEGT RÝMI OG HREINLÆTI
Mikilvægt er að virða persónulegt rými annarra með því að halda hæfilegri fjarlægð, sérstaklega þegar mikið er um að vera, og vera meðvitaður um hávaðastig.
Mikilvægt er að gæta fyllsta hreinlætis með því að huga vel að eigin hreinlæti, klæðast hreinum æfingafötum og þvo hendur fyrir og eftir æfingar til að tryggja gott heilnæmt umhverfi fyrir alla.
SAUNA OG ÚTISVÆÐI
Mikilvægt er að skola vel af sér áður en haldið er í sauna eða á útisvæði. Óheimilt er að klæðast nærfatnaði eða æfingafatnaði þegar pottar og gufur eru sóttar, einungis viðeigandi sundfatnaði.
Í sauna í búningsklefum skal vera í sundfötum eða hafa handklæði undir sér.
STUNDVÍSI Í HÓPTÍMA OG Á NÁMSKEIÐ
Mikilvægt er að mæta stundvíslega í opna hóptíma til að trufla ekki aðra. Ef meðlimur er ekki mættur í tíma þegar tíminn er hafinn er ekki hægt að tryggja plássið.
MATVÆLI OG ÁVANABINDANDI EFNI
Neysla á matvælum er óheimil á æfingasvæðum og búningsklefum. Meðferð tóbaks, nikótíns eða veips og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í Hreyfingu.
Takk fyrir að virða Hreyfingarsiðina. Vonandi sjáum við þig sem oftast í Hreyfingu!